Samstarf Hvalasafnsins og Whales of Iceland
Samstarf Hvalasafnsins og Whales of Iceland
Forsvarsmenn Hvalasafnsins á Húsavík og Whales of Iceland, Hvalasýningarinnar á Granda, skrifuðu í gær undir samstarfssamning á Vestnorden ferðakaupsráðstefnunni sem haldin er í Reykjavík. Samningurinn felur í sér að aðilar hans munu kynna söfn og sýningu hvors annars. Í því felst einkum að bæklingar og kynningarefni frá báðum aðilum verða aðgengilegir í Hvalasafninu á Húsavík og á Hvalassýningunni hjá Whales of Iceland í Reykjavík.Mikilvægasti hluti samstarfsins felst í afsláttarkjörum sem gilda gagnkvæmt fyrir viðskiptavini beggja samningsaðila frá og með árinu 2017. Þannig mun aðgöngumiði inná sýninguna í Reykjavík gilda sem 20% afsláttur inná safnið á Húsavík og öfugt. Nægilegt verður fyrir viðskiptavini að vísa fram aðgöngumiða frá öðrum hvorum aðilanum þessu til staðfestingar.Samningurinn er að mati beggja aðila jákvæður, auk þess sem samstarfssamningurinn er til hagsbóta fyrir viðskiptavini beggja aðila.
Sædís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Whales of Iceland og Valdimar Halldórsson framkvæmdastjóri Hvalasafnsins á Húsavík handsala samninginn.
Um Hvalasafnið á Húsavík: Hvalasafnið á Húsavík var stofnað árið 1997. Safnið er sérhæft safn um hvali sem hefur þann megintilgang að stuðla að söfnun muna og sagna tengdum hvölum og hvalveiðum, skráningu þeirra og varðveislu. Auk þess er hlutverk þess að miðla fræðslu og upplýsingum um hvali og búsvæði þeirra á hagnýtan og áhugaverðan hátt og auðvelda þannig aðgang þjóðarinnar að slíkum upplýsingum. Með fræðslu um hvali og lífríki þeirra eykur Hvalasafnið einnig á fræðslugildi hvalaskoðunarferða sem farnar eru frá Húsavík og víðar. Fjöldi gesta á árinu 2016 stefnir í ríflega 35.000.
Um Whales of Iceland: Hvalasýningin, Whales of Iceland, var opnuð í febrúar árið 2015. Á sýningunni má finna manngerð líkön í raunstærð af þeim 23 hvalategundum sem hafa fundist í hafinu umhverfis Ísland ásamt ýmsum gagnvirkum fræðslustöðvum. Einnig er boðið upp á hljóðleiðsögn þar sem gestir fá fræðslu um hvalina á léttan og áhugaverðan hátt. Markmið Hvalasýningarinnar er að veita gestum innsýn inn í einstaka veröld hvalanna og tækifæri til að komast í snertingu við þennan heim sem er okkar annars svo dulinn.